148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur nefndarálitum en geri það í einni ræðu og mig langar að byrja á að útskýra það aðeins. Það er vegna þess að þessi mál, sem er annars vegar frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og hins vegar frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, eru að mörgu leyti nátengd og náskyld mál og voru unnin saman í allsherjar- og menntamálanefndar. Þau taka hins vegar til tveggja ólíkra hópa og þess vegna varð að ráði að hafa tvö aðskilin nefndarálit. Þeir sem lögin munu ná til verði frumvörpin samþykkt eru tveir ólíkir hópar. Það er auðveldara fyrir utanaðkomandi að skilja málið þannig en fullkomlega eðlilegt að ræða málin saman á Alþingi.

Ég ætla að byrja á því að gera grein fyrir nefndaráliti um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, en með því frumvarpi er lagt til að gildi taki ný heildarlög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Lögin gilda ekki um mismunandi meðferð einstaklinga á grundvelli ríkisfangs eða ríkisfangsleysis, búsetu hér á landi eða um fjölskyldu- og einkalíf. Lögin hafa hins vegar að markmiði að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Það er líklega óþarfi að taka það fram en kannski ágætt að segja það að nefndin fékk á fund sinn mjög marga gesti og fjallaði um málið á þó nokkrum fundum, en ég ætla ekki að teygja tímann með því að telja það allt saman upp. Um það allt má lesa í nefndarálitinu.

Það kemur skýrt fram í þessu lagafrumvarpi að brot gegn ákvæðum laganna eru kæranleg til kærunefndar jafnréttismála.

Jafnframt kemur fram í 5. gr. frumvarpsins að Jafnréttisstofa fari með framkvæmd laganna og er vísað til þess í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna að þau lög skuli gilda eftir því sem við getur átt. Í nefndinni var talsvert rætt um mikilvægi þess að Jafnréttisstofa hafi heimild til að leggja á dagsektir verði fyrirtæki eða stofnanir uppvís um alvarleg brot gegn lögunum og láti ekki af slíkri háttsemi. Hér er breytingartillaga við frumvarpið til að ítreka þann skilning enn frekar.

Í 6. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa þeim sem telja á sér brotið samkvæmt lögunum til að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála. Nefndin leggur á það sérstaklega áherslu að kærunefndin nýti sér þá heimild sem hún hefur nú þegar í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla til að leita sér ráðgjafar sérfróða aðila eftir gildistöku frumvarpsins, vegna þess að í raun er verið að útvíkka gildissvið laganna. Það er mjög mikilvægt að þeir sem sýsla um þau mál leiti sér sérfræðiþekkingar.

Það slær marga að í titli frumvarpsins kemur fram hugtakið „kynþáttur“. Nefndin fjallaði sérstaklega um það og við bendum á að þetta hugtak er á ýmsan hátt úrelt og úr sér gengið. Það hefur þó engu að síður merkingu í lagalegum skilningi, samanber t.d. alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að eldri hugmyndir um kynþátt sem skýrt hugtak með líffræðilega skírskotun eigi ekki lengur við þótt stuðst sé við þetta orð til að berjast gegn fordómum sem fólk verður fyrir af ýmsum ástæðum.

Þetta frumvarp nær eingöngu til jafnrar meðferðar óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og var talsvert rætt í nefndinni um útvíkkun hugtaksins. Því er lagt til ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli innan eins árs leggja fram á Alþingi frumvarp til breytingar á lögunum um að meginreglan um jafna meðferð einstaklinga nái einnig til trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði.

Að lokum: Gildistaka samkvæmt frumvarpinu átti að miðast við 1. júlí 2018 en vegna þess hvert við erum komin í dagatalinu leggur nefndin til að gildistökunni verði frestað til 1. september.

Það eru lagðar til nokkrar breytingar við þetta frumvarp, ítrekað að leggja megi á dagsektir, tekið til þess að í reglugerð verði fjallað um útfærslu á banni við mismunun í skólum og uppeldisstofnunum, gildistökuákvæði breytt og svo það bráðabirgðaákvæði sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Þá að nefndaráliti um frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Með því frumvarpi er lagt til að ný heildarlög um jafna meðferð á vinnumarkaði taki gildi og að lögin taki til jafnrar meðferðar einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðunum, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu og hafi að markmiði að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að í 3. gr. frumvarpsins er að finna orðskýringar ýmissa hugtaka sem skipta máli fyrir lögin. Þar er m.a. skýring á hugtakinu fötlun. Nefndinni var bent á að þar væri verið að notast við úrelta skilgreiningu á hugtakinu fötlun og m.a. í því sambandi bent á nýsamþykkt lög héðan frá Alþingi um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þar sem skilgreiningin er öðruvísi og leggur nefndin til að því orðalagi verði breytt til samræmis við hin nýlega samþykktu lög héðan.

Þá var einnig bent á að í 10. gr. frumvarpsins, sem hefur fyrirsögnina Ráðstafanir atvinnurekenda vegna fatlaðra einstaklinga eða einstaklinga með skerta starfsgetu, sé í raun um að ræða gallaða þýðingu á því sem hefur oft verið kallað „reasonable accommodation“ og að nærtækara væri að notast við þýðinguna „viðeigandi aðlögun“ enda er það í samræmi við 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin leggur til að til þess að tengja greinina betur við samning Sameinuðu þjóðanna verði fyrirsögn 10. gr. breytt í „Viðeigandi aðlögun“.

Það sama leggjum við svo til með gildistökuna á þessu frumvarpi líkt og hinu fyrra, að hún frestist til 1. september 2018. Það er sem sagt lagt til að í 3. gr. breytist skilgreining á hugtakinu fötlun, að ítrekað verði líkt og í hinu frumvarpinu að hægt sé að leggja á dagsektir. Það er ekki breyting heldur aðeins verið að ítreka það enn frekar í lagatextanum að fyrirsögn 10. gr. verði „Viðeigandi aðlögun“. Svo er smáorðalagsbreyting í 11. gr. og svo breytt dagsetning á gildistöku.

Hv. þingmenn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Jón Steindór Valdimarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa samt undir þetta nefndarálit með þar til gerðri heimild. Undir álitin bæði skrifar öll allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir framsögumaður, Páll Magnússon formaður, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Teitur Björn Einarsson, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Ég legg til að frumvörpin verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir.