148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029. Umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti, Jón Geir Pétursson og Dagnýju Arnarsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Guðjón Bragason, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í verkefnisstjórn ráðuneytisins um gerð landsáætlunar, Kristínu Huld Sigurðardóttur og Þór Hjaltalín frá Minjastofnun Íslands, Hilmar J. Malmquist frá Náttúruminjasafni Íslands, Einar Pálsson frá Vegagerðinni, Auði Magnúsdóttur frá Landvernd, Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur og Björn Traustason frá Skógræktinni, Gunnar Val Sveinsson og Önnu G. Sverrisdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Síðan bárust nefndinni umsagnir frá Bláskógabyggð, Ferðamálastofu, Landssamtökum landeigenda á Íslandi, Landvernd, Leiðsögn – Stéttarfélagi leiðsögumanna, Minjastofnun Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum náttúrustofa, Skógræktinni, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði og Vegagerðinni.

Landsáætlun gildir til 12 ára og er sú fyrsta sem unnin er eftir að ný lög um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, tóku gildi. Landsáætlunin felur í sér að reglulega verði unnin þriggja ára verkefnaáætlun þar sem tilgreint verði hvaða verkefni hverju sinni verði fjármögnuð. Nefndin telur það mikið framfaraskref sem geri framkvæmdaraðilum m.a. fært að skipuleggja framkvæmdir til lengri tíma en áður hefur verði hægt. Með áætluninni er verið að mæta brýnni og aðkallandi þörf fyrir skýra stefnumótun stjórnvalda um málefni ferðamannastaða og flestir umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart því að þetta mikilvæga mál skuli komið í farveg.

Það bárust nokkrar athugasemdir og er rétt að nefna sérstaklega og nefndin leggur áherslu á að séu hafðar í huga við stefnumótunina og framkvæmdina. Má þar nefna athugasemdir þess efnis að þörf væri á að skýra betur hugtakið „ferðamannastaður“ og hvaða álagsþættir það væru sem helst steðja að náttúru- og menningarminjum vegna ferðaþjónustu og útivistar. Í því samhengi komu einnig fram athugasemdir um ferðamannastaði í þéttbýli og skort á fjárveitingu til þeirra. Margir þeirra eru afar mikið sóttir af ferðamönnum þótt staðirnir séu almennt ekki vel kunnir sem ferðamannastaðir og alls ekki auglýstir sem slíkir en notaðir mikið af aðilum sem bjóða upp á afþreyingu fyrir ferðamenn, svo sem norðurljósaferðir, fjórhjólaferðir, hestaferðir o.s.frv. Augljóslega fylgir slíkri starfsemi mikið álag á innviði.

Þá komu fram athugasemdir þess efnis að mikilvægt væri að huga að tengslum við önnur verkefni hins opinbera við gerð landsáætlunar, t.d. að landsáætlun og samgönguáætlun þyrfti að samræma með tilliti til heildarmyndar og hagkvæmni rekstrar. Auk þess þyrfti í hvívetna að huga að öðrum opinberum áætlunum, svo sem stefnu um vernd náttúru- og menningarminja. Leggur nefndin áherslu á að þetta verði haft að leiðarljósi.

Þá kom fram það sjónarmið í umsögn að menningarminjar séu aukaafurð í umfjöllun áætlunarinnar og að umsjónarhlutverk stjórnsýslustofnana verði stundum óljóst í ályktuninni. Nefndin bendir á að áætluninni er ætlað að vera stefnumarkandi um uppbyggingu innviða til verndar bæði náttúru og menningarsögulegum minjum og leggur ríka áherslu á að gætt sé að vægi menningarminja með hliðsjón af lögum nr. 80/2012, um menningarminjar, við framkvæmd og endurskoðun áætlunarinnar.

Bent var á mikilvægi þess að varpa skýrara ljósi á hvernig byggja ætti upp fyrirhugað net ferðamannastaða sem tæki við þorra ferðamanna, svo sem fjölda staða, hvernig þeir yrðu valdir, hvernig lágmarksuppbyggingu yrði háttað o.s.frv. Nefndin tekur undir að mikilvægt sé að greina hvað ferðamenn sem til landsins koma sækjast eftir að sjá og vanda til verka við skipulagningu og uppbyggingu á neti ferðamannastaða. Þá er nauðsynlegt að áætlunin styðji markmið stjórnvalda um dreifingu ferðamanna um landið í því skyni að draga úr álagi á einstaka ferðamannastaði.

Umhverfis- og samgöngunefnd leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið skrifa Bergþór Ólason formaður, Hanna Katrín Friðriksson framsögumaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.