148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[16:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þingsályktunartillagan sem fyrir liggur um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum — þeir gerast varla lengri, titlarnir á þingsályktunartillögum — er oftast bara kölluð innviðaáætlun. Innviðaáætlun er góð tíðindi í ferðaþjónustunni og umhverfismálum. Þetta er skilvirk uppbyggingaráætlun að aðgerðum sem er dreift um landið með fjármögnun að baki. Ástæða er til að fagna þeirri fjármögnun því að þetta eru yfir 2 milljarðar á þremur árum. Hins vegar má fullyrða að betur má ef duga skal. Það beinir sjónum okkar að séröflun tekna til að bæta í alls konar aðgerðir sem tengjast álagi af völdum ferðamanna. Menn hafa rætt um komugjöld eða brottfarargjöld og annað slíkt, sem eru auðvitað lágar upphæðir. Og sem hlutfall af vikuferðum innan lands sem geta kostað vel yfir 200.000 kr. á mann er hægt að fullyrða að þetta, ef upp verður tekið, er ekki hindrandi aðgerð, þ.e. að taka upp einhvers konar komu- eða brottfarargjöld af þessu tagi.

Ég vil minna á náttúru landsins af þessu tilefni. Þar eru álagsskemmdir orðnar býsna víða og annað sem maður getur jafnvel kallað sóðaskap þar sem menn fara illa með það sem þeir bera með sér eða taka ekki til eftir sig. Ef á að gera miklu betur í þeim efnum kostar það töluverða peninga, mannafla og annað slíkt. Það beinir sjónum okkar aftur að sértekjuöflun þó að annað sé einnig í kortunum, þ.e. að hægt sé að afla tekna með öðrum hætti en eingöngu einhverjum sérgjöldum.

Ég minni líka á menningarminjarnar okkar. Þá er ég einkum að tala um fornleifar í jörðu og í sjó. Það má hyggja mjög vel að þeim og kannski sérstaklega núna þegar um er að ræða álag af völdum ferðamanna á marga staði þar sem eru ýmist þekktar fornminjar eða lítt eða óþekktar. Eitt af því sem þarf að efla er ásættanleg skráning, sérstaklega að safna skráðum fornminjum saman í einn banka. Það hefur verið verkefni um nokkurn tíma.

Þegar maður minnir á náttúruna og menningarminjarnar er maður í raun að tala um þolmörk landsins og samfélaga og tilheyrandi álagsstýringu sem er bara annað orð yfir það þegar talað er um að dreifa ferðamönnum um landið. En það eru líka efri mörk á því sem samfélag á borð við Ísland getur tekið við af ferðafólki til góðrar þjónustu. Endurskoðuð og aukin innviðaáætlun er eflaust eitthvað sem við eigum eftir að sjá í þeim efnum.

Það má sem sagt gleðjast yfir innviðaáætluninni og ég vil nota tækifærið og senda sérstakar þakkir til vinnuhóps samráðsaðila og ráðuneytisstarfsmanna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Eins er mjög gleðilegt að verða vitni að þeirri sátt sem náðist í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um þessa mikilvægu áætlun.