skattleysi uppbóta á lífeyri.
Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skattleysi uppbóta á lífeyri. Þessi þingsályktunartillaga er komin fram vegna frumvarps sem lagt var fram á þingi 24. janúar 2018 um breytingu á lögum um tekjuskatt, 90/2003, skattleysi uppbóta á lífeyri. Í því frumvarpi stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:
„Með frumvarpinu er lagt til að uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti, til lífeyrisþega sem ekki getur framfleytt sér án hennar […] verði undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Ólíkt örorkulífeyri miðar slík uppbót ekki að því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu heldur að því að koma til móts við sérstök útgjöld lífeyrisþega. Það markmið næst augljóslega ekki ef stór hluti uppbótarinnar er tekinn í skatt. Skilgreining hennar sem skattskyldar tekjur hefur enn fremur keðjuverkandi áhrif því hún skerðir fyrir vikið aðrar bætur til tekjulágra lífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og barnabætur.“
Lífeyrisþegar sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma finna aftur á móti fyrir verulegum breytingum ef þetta fer í gegn.
Sjö erindi komu til efnahags- og viðskiptanefndar vegna þessa máls. ASÍ tók vel í málið, Landssamband eldri borgara styður málið heils hugar og vísar í sjónarmið Öryrkjabandalags og styður það líka. Öryrkjabandalag Íslands sendi inn þrjú erindi og lýsir fullum stuðningi við málið. Einnig kom erindi frá ríkisskattstjóra og Tryggingastofnun.
Snúum okkur þá að þingsályktunartillögunni en í henni segir, með leyfi forseta:
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp, eigi síðar en 1. nóvember 2018, sem leysi undan skattskyldu uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Við frumvarpsvinnuna verði m.a. haft samráð við félags- og jafnréttismálaráðherra með það að markmiði að tryggja að skattleysi uppbóta á lífeyri skerði ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.“
Í greinargerð segir m.a.: „Þingsályktunartillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem tryggi skattleysi uppbóta á lífeyri, enda óeðlilegt að einstaklingar séu skattlagðir vegna greiðslna sem ætlað er að standa undir kostnaði þeirra vegna örorku, hreyfihömlunar eða sjúkdóma. Jafnframt er ráðherra falið að hafa samvinnu við félags- og jafnréttismálaráðherra til þess að tryggja að skattleysið leiði ekki til skerðinga á greiðslum almannatrygginga til þeirra sem eiga rétt á uppbótum á lífeyri. Við vinnuna verði metið hvort gera þurfi breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, til að tryggja stöðu lífeyrisþega að þessu leyti.
Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar 108. þingmál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, 90/2003, skattleysi uppbóta á lífeyri, sem lýtur að sama efni. Flutningsmenn frumvarpsins eru […] þingmenn Flokks fólksins. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lýst stuðningi við efni frumvarpsins og telur óeðlilegt og ósanngjarnt að uppbót á lífeyri sé skattlögð líkt og um launatekjur sé að ræða án þess að veittur sé frádráttur á móti vegna útlagðs kostnaðar.“
Þakka ber efnahags- og viðskiptanefnd fyrir meðferð málsins hjá og einnig sérstaklega formanni nefndarinnar, Óla Birni Kárasyni, fyrir vinnu hans við að koma þingsályktunartillögunni að. Ég hvet til þess að þetta mál verði samþykkt á þingi. Ég tel að ef við stöndum okkur vel verði þetta jólagjöf til þessa hóps í ár sem væri vel þegin af því að við erum að tala um það fólk sem hefur minnst handanna á milli og ber mikinn kostnað vegna veikinda eða fötlunar.
Í því samhengi stend ég í þeirri trú og vissu að málið verði samþykkt og fari greiðlega í gegn þeim hópi til hagsbóta.