148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessa máls og reyndar eru á því máli allir flokkar sem eiga sæti á þingi ásamt Flokki fólksins. Í efnahags- og viðskiptanefnd var heilmikið rætt um málið og okkur öllum þar inni fannst þetta vera réttlætismál. Einhverjar aukaverkanir hefðu þó verið af því að samþykkja frumvarpið óbreytt þannig að leitað var leiða til að koma málinu áfram og búa það í þann búning að mögulegt væri að útrýma því óréttlæti. Það sér hver maður að það að skattleggja greiðslur sem ætlaðar eru til að standa undir kostnaði vegna örorku, hreyfihömlunar eða sjúkdóma og jafnvel lækka síðan bæturnar á móti af því að það kom styrkur er gildra sem er óréttlát og þarf að leysa úr.

Ég styð málið eindregið og er mjög ánægð með að þingmenn Flokks fólksins hafi haldið því á lofti og opnað augu okkar hinna fyrir þeirri gildru sem þyrfti að laga. Ég vona að þetta þingmál fái greiðan aðgang og verði samþykkt síðar í dag.