148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:19]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er ágætistillaga sem komin er fram sem viðbrögð við ákveðnum vandkvæðum á annars mjög fínu frumvarpi. Auðvitað styðja Píratar þetta mál, enda er þetta réttlætismál, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir orðaði það. Það er bara eðlilegt að hætta að refsa fólki fyrir að þurfa á búnaði og öðru að halda til að geta lifað mannsæmandi lífi.

Þetta hefði auðvitað átt að fara í gegn sem frumvarp. Það frumvarp sem til var var ekki gallalaust en það var í sjálfu sér engin ástæða til að breyta því ekki með svokölluðum breytingartillögum, eins og við gerum með flestöll önnur mál. Ég óttast að þetta sé klassískt dæmi um að ríkisstjórninni hugnist ekki að leyfa góðum málum að fara í gegn ef aðrir stuðla að því en hún og að hérna hafi verið hægt á ferli sem hefði getað klárast núna.

Það verður samt að segjast eins og er að það er skárra að við séum að klára málið með þessum hætti, með þingsályktunartillögu, í stað þess að gera það ekki. Mig langar að hrósa Flokki fólksins fyrir að ná þó þeirri lendingu og hafa staðið sig mjög vel í að halda þessu augljósa réttlætismáli á lofti á þinginu og gera okkur, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir orðaði það, grein fyrir því hversu mikilvægt þetta er. Ég hefði annars ekki áttað mig á því. Þannig að í stuttu máli á auðvitað að samþykkja þessa þingsályktunartillögu núna. Síðan ætti ráðherra að koma fram með það á tilsettum tíma og helst fyrr ef möguleiki er á þannig að hægt verði að klára það sem allra fyrst.