skattleysi uppbóta á lífeyri.
Virðulegi forseti. Ég tek eins og aðrir undir að það er ánægjulegt að sjá þetta mál verða að veruleika. Jafnvel þó að við höfum þurft að breyta því lítillega til að það fengi framgang erum við með þingsályktunartillögu sem felur í sér að ráðherra er falið að koma fram með frumvarp fyrir ákveðna dagsetningu, sem er mikill sigur í sjálfu sér. Eins og aðrir óska ég þingmönnum Flokks fólksins til hamingju með það.
Á þingsályktunartillögunni er fyrir hönd Miðflokksins hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sem er hæstv. forseti þessa stundina og getur því ekki talað um þetta ágæta mál. Ég kem því upp til að ítreka vilja okkar Miðflokksmanna til að vinna áfram að því að bæta kjör og einfalda systemið, ef ég má nota það orð hér, hæstv. forseti, því að ekki veitir af. Það eru afar fáir hér í landi sem skilja hvernig velferðarkerfi okkar virkar í raun. Skerðingar held ég að við getum flest verið sammála um að séu eiginlega bölvuð vitleysa. Eins og kerfið er í dag gerum við fólki mjög erfitt fyrir í sjálfu sér að hafa í sig og á. Þetta er gott skref í þá átt að vinna til baka þau réttindi sem við viljum gjarnan að aldraðir og öryrkjar og aðrir sem þurfa á samfélagsþjónustu okkar að halda njóti og hafi. Enn og aftur er þetta dæmi um að við getum náð ákveðnum árangri ef menn standa einfaldlega saman og átta sig á mikilvægi málsins. Það er kannski stærsti sigurinn í þessu máli að hafa opnað augu þingsins fyrir því hversu mikilvægt þetta mál er og hversu mikilvægt er að við höldum áfram á þeirri vegferð að afnema þau óréttindi, ég leyfi mér að nota það orð, þann órétt sem felst í svo miklu í kerfi okkar, hvort sem það eru skerðingar eða ef menn eru að borga skatt af tekjum sem þeir hafa áður borgað skatt af o.s.frv. Við þurfum smám saman að vinna það í rétta átt og ég óska 1. flutningsmanni til hamingju með að vera búinn að ná þessu í gegn.