148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að óska 1. flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu til hamingju, hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni. Ég hygg að þetta sé dæmi um það þegar einarður málflutningur og ötul vinna skilar töluverðum árangri. Málið er ekki í höfn, ég geri mér grein fyrir því, en hins vegar er alveg ljóst að mjög skýr skilaboð felast í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni. Það eru skilaboð frá þinginu, skilaboð frá efnahags- og viðskiptanefnd sem er einhuga í þeirri afstöðu sinni að við verðum að afnema það óréttlæti sem felst í skattheimtu á uppbótum á lífeyri en við verðum líka að tryggja að það afnám eða skattfrelsi slíkra uppbóta komi ekki niður á þeim sem njóta með öðrum hætti, t.d. varðandi skerðingu í almannatryggingakerfinu.

Ég vil líka þakka þingflokki Flokks fólksins fyrir að taka þá afstöðu að flytja málið á þennan hátt, sem tryggir framgang þess. Skilaboð þingsins til ríkisstjórnarinnar og sérstaklega til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eru skýr: Við munum ætlast til þess og fylgja því fast eftir að frumvörp eða frumvarp þessa efnis líti dagsins ljós. Ég hygg að svo mikill stuðningur, eindrægni, sé í salnum að við getum gert okkur vonir um það án þess að vera með mikla bjartsýni að málið verði í höfn áður en árið er úti.