skattleysi uppbóta á lífeyri.
Virðulegi forseti. Þetta er stór dagur í sögu Flokks fólksins þegar það er innan seilingar að fyrsta málið okkar nái hér í gegn og verði síðar að lögum, þetta mál með skattleysi uppbóta á lífeyri. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp flutningsmenn þingsályktunartillögunnar, það eru þingmenn Flokks fólksins; Guðmundur Ingi Kristinsson framsögumaður, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, og síðan einn þingmaður úr hverjum flokki hér á þinginu; Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Oddný G. Harðardóttir, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson og Þorsteinn Víglundsson.
Þetta er stór dagur eins og ég sagði. Um sanngirnis- og réttlætismál að ræða sem snertir reyndar nokkur þúsund manns. Þetta eru ekki háar fjárhæðir úr ríkissjóði, alls ekki, en þetta er réttlætismál og eitt af fleiri slíkum réttlætismálum sem við úr Flokki fólksins teljum okkur koma með inn á þetta þing. Menn munu sjá fleiri slík mál á næsta þingi og við erum afskaplega þakklát fyrir hvað allir flokkar og allir þingmenn hafa flykkt sér á bak við málið hjá okkur. Ég vil sérstaklega þakka formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir framlag hans þar sem menn sáu það fljótlega í efnahags- og viðskiptanefnd að hér væri um mikið réttlætismál að ræða. Einhverjir sáu þó annmarka á þessu í kerfinu, þ.e. í skattkerfinu og hjá Tryggingastofnun, að skoða þyrfti einhverja hluti betur og þess vegna kemur þetta núna fram í formi þingsályktunartillögu þar sem allt Alþingi er á bak við tillöguna sem ég á von á að fái góðar undirtektir fyrst þetta er borið upp af öllum flokkum.
Efni þess er í stuttu máli það að fjármála- og efnahagsráðherra er falið að leggja fram frumvarp til að bæta úr þessu fyrir 1. nóvember nk. Ég á von á því að þetta verði þá orðið að lögum fyrir næstu jól og verði þá jólagjöf Flokks fólksins til kjósenda okkar.