148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Þetta er sannarlega mjög ánægjuleg stund sem við upplifum hérna núna. Ég er afar glaður og afar þakklátur.

Erindi Flokks fólksins er ekki síst það að berjast í þágu þeirra sem ekkert hafa og eru gleymdir í þessu þjóðfélagi. Þetta mál hefur verið baráttumál Öryrkjabandalags Íslands. Við tókum það upp á okkar arma með þeim árangri, leyfi ég mér að segja, að Alþingi hefur sameinast að baki okkur í þessu. Ég er mjög þakklátur öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg og ég er mjög þakklátur öllum þeim sem hafa lagt þessu máli lið. Ég vil eins og aðrir ræðumenn af okkar hálfu þakka sérstaklega formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, ég þakka nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd og ég þakka hv. þingmönnum sem eru meðflutningsmenn á þingsályktunartillögunni.

Um málið er þannig búið að vilji Alþingis er algerlega skýr og þess vegna vil ég sérstaklega þakka þeim sem hafa tekið til máls og undirstrika það í ræðum sínum hversu eindregin og skýr skilaboð Alþingi er að senda framkvæmdarvaldinu, í þessu tilfelli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, um að þetta mál komi hér fram sem frumvarp í síðasta lagi 1. nóvember þannig að þá gefist rúmur tími til að mæla fyrir því og afgreiða það í nefnd og að lokum, leyfi ég mér að segja, samþykki það sem lög frá hinu háa Alþingi.

Ég ítreka þakkir mínar. Þetta er sannarlega mikil gleðistund.