148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[18:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Breytingartillagan sem við Píratar leggjum fram hefur ekkert með afturvirka launalækkun að gera. Afturvirk lög, lög sem skerða réttindi fólks afturvirkt — það er meginregla í vestrænu réttarfari alveg aftur til rómverska lýðveldisins að við gerum ekki svoleiðis. Það er ekki það sem verið er að leggja til. Það sem aftur á móti er verið að leggja til er að laun þingmanna lækki, þá tímabundið eins og forsætisráðherra nefnir. Það mun leiðréttast einhvern tímann í byrjun ársins 2019, eftir ár, eftir hálft ár alla vega, en þangað til leiðréttast launin okkar. Við höfum haft þessa launahækkun frá ákvörðun kjararáðs, í eitt og hálft ár. Það leiðréttast þá launin, bara hjá ráðherrum og þingmönnum, í átt við þá launaþróun sem hefði átt að eiga sér stað og það er gott að forsætisráðherra viðurkennir að við fórum umfram þá launaþróun. Margt annað við þetta mál er mjög gott. Við ætlum að vera á gulu vegna þess að það eru álitaefni sem við höfum nefnt. Þetta frumvarp kom seint inn í þingið, kemur beint úr nefnd, lítil umræða, nánast ekkert unnið í nefndinni þannig að við munum sitja hjá hvað þetta varðar. Við höfum í ræðum okkar bent á álitaefni sem gætu verið varhugaverð og menn geta bara kíkt á ræðurnar (Forseti hringir.) því að ég er búinn með tímann minn. En það er annars margt gott við þetta. Ég vona að fólk samþykki breytingartillöguna þannig að við fáum strax réttlæti en þurfum ekki að bíða fram á næsta ár varðandi launaþróun æðstu ráðamanna.