148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Stundum held ég að fólk sitji heima í stofu og skilji ekki alveg hvað við erum ósammála um því að hér stendur allur þingheimur að tillögum sem ganga út á að við ráðumst í aðgerðir til að bæta kjör kvennastétta. Eini munurinn er sá að fulltrúar minni hlutans vilja að Bjarni Benediktsson leiði vinnu í átt að þjóðarsátt í þeim efnum á meðan við í meiri hlutanum bendum á praktískt verkfæri, starfsmatið, sem er ekki það sama og jafnlaunavottunin heldur miklu öflugra tól sem kafar ofan í launasetningu stórra eininga eins og Reykjavíkurborgar. Það er því að þakka að launamunur kynjanna er nánast horfinn úr borginni og við viljum að því tæki sé beitt hjá ríkinu. Ég vil að meirihlutatillagan hljóti brautargengi af því það er miklu meira kjöt á þeim beinum.