148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég fagna þessum framkomnu frumvörpum. Það er vissulega mikilvægt að tryggja jafnan rétt ólíkra hópa. Þrátt fyrir okkar um margt ágætu stjórnarskrá eru hópar sem eru ekki sérstaklega tilgreindir þar. Fjallað er sérstaklega um þá í þessu frumvarpi, þar er um að ræða hópa gagnvart mismunandi kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu svo dæmi séu tekin. Ástæða þess að ég kem hingað upp, samhliða því að fagna þessu, er að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með að á sama tíma skuli ekki vera löggjöf um málefni transfólks og intersexfólks því að um töluvert skeið hefur verið talað um að þessir pakkar fari saman. Ég átta mig á að hæstv. heilbrigðisráðherra er með þessi mál á sinni könnu og hefur talað um að frumvarp komi fram í haust, sem er gott. En ég lýsi engu að síður yfir áhyggjum af því vegna þess að á meðan unnið hefur verið að þessum heildstæða málaflokki hefur verið talað mikið um mikilvægi þess að þetta allt sé sett fram saman.

Ég ætla að nota tækifærið og segja að ég vonast innilega til (Forseti hringir.) þess að stór og mikill verkefnalisti hæstv. heilbrigðisráðherra verði ekki til þess að málefni transfólks og intersexfólks hrapi neðar á forgangslistanum, nú þegar þetta frumvarp er orðið að lögum, ef svo fer sem horfir.