148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[21:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Þetta mál á sér uppruna í lagafrumvarpi sem flutt var af gervöllum þingflokki Flokks fólksins. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson er 1. flutningsmaður og aðrir þingmenn Flokks fólksins með honum. Efni þingsályktunartillögunnar er um að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp eigi síðar en 1. nóvember á þessu ári sem leysi undan skattskyldu uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Þessar uppbætur eru þannig vaxnar að þær lúta að hvers kyns þjónustu og hjálpartækjum fyrir öryrkja og lífeyrisþega sem ekki fást með öðrum hætti. Þannig háttar til að þessar uppbætur hafa verið skattlagðar eins og þær væru tekjur, sem er náttúrlega ekki rétt. Þetta er það sem mætti jafna við útlagðan kostnað. Málið hefur fengið mikinn stuðning hér á Alþingi, fyrst í efnahags- og viðskiptanefnd, sem hefur lýst stuðningi við málið og telur óeðlilegt og ósanngjarnt að uppbót á lífeyri sé skattlögð líkt og um launatekjur sé að ræða án þess að veittur sé frádráttur á móti vegna útlagðs kostnaðar. Þetta er innsti kjarni málsins.

Á grundvelli umsagna sem bárust um frumvarpið, sem við þingmenn Flokks fólksins fluttum, var talið að málið þyrfti eilítið nánari skoðunar við vegna skattatæknilegra atriða og annarra slíkra. Það varð að ráði að flytja þessa tillögu til þingsályktunar um að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp um þetta efni. Þessi tillaga til þingsályktunar er borin fram af þingmönnum Flokks fólksins auk þess sem það er stutt einum fulltrúa frá hverjum stjórnmálaflokki sem á sæti hér á Alþingi.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þann mikla stuðning sem þetta málefni hefur fengið. Þetta felur í sér mikla réttarbót fyrir fólk sem stendur höllum fæti. Þó að heildarfjárhæðir sem um er að tefla fyrir ríkissjóð séu ekki ógnarlega háar er um að ræða fjárhæðir sem geta skipt einstaklinga afar miklu máli. Ég vil ítreka þakklæti mitt fyrir þann mikla stuðning sem málið hefur fengið og þessi þingsályktunartillaga nýtur. Hún felur í sér mjög sterk eindregin skilaboð til framkvæmdarvaldsins og fyrirmæli til hæstv. ráðherra um að leggja fram frumvarp þessa efnis eigi síðar en 1. nóvember á hausti komanda. Ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls við fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna og lýstu yfir mjög eindregnum stuðningi við þetta mál. Ég vil sömuleiðis þakka efnahags- og viðskiptanefnd og ekki síst formanni hennar fyrir atbeina í þessu máli.