148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[21:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er nú bara kominn í þessa pontu til þess að ánýja þann stuðning sem Miðflokkurinn hefur sýnt þessu máli sem er réttlætismál. Þetta er gott dæmi um mál þar sem við getum tekið saman höndum um, því að við getum það ef við viljum. Vonandi er það vegvísir í að við getum í einhverjum málum sem virkilega skipta máli — og þau eru nokkur, m.a. hér í kvöld — lagt frá okkur vopn og sameinast í því að fylgja þeim fram.

Ég óska Flokki fólksins til hamingju, og flutningsmanni sérstaklega, þótt hann sé ekki hér í salnum, með að hafa komið málinu alla þessa leið. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við það og vona að það fái hér góða úrlausn og áfram í framhaldinu því að ekki er sopið kálið þó að í ausuna sé komið. Auðvitað verðum við þá að halda ríkisstjórninni við efnið þannig að málið sofni ekki heldur haldi áfram allt til enda.