148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hlutans um breytingar á lögum um Íslandsstofu. Fyrst vil ég segja að markmiðið með því lagafrumvarpi sem við fjöllum um er fyrst og fremst að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda og auka samstarf og samþættingu og þar af leiðandi betri nýtingu fjármuna þegar kemur að því að markaðssetja Ísland og íslenskar afurðir á erlendri grundu.

Það er líka markmið að skýra stjórnsýslulega stöðu Íslandsstofu í ljósi þess að athugasemdir hafa komið frá bæði Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis um skýrleika á því hvort um væri að ræða opinbera stofnun eða ekki.

Í ljósi þess fór heilmikið af tíma nefndarinnar í umræðu um nákvæmlega það. Á fund nefndarinnar mættu fjölmargir aðilar og eru þeir tilgreindir í nefndarálitinu. Umsagnir bárust frá fjórum aðilum, Ferðamálastofu, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og utanríkisráðuneyti. Hægt er að segja að við höfum meira og minna orðið við þeim athugasemdum sem komu fram.

Frumvarpið sem um ræðir byggir á talsvert langri og mikilli vinnu innan utanríkisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar allrar og líka hjá Samtökum atvinnulífsins. Utanríkisráðherra setti haustið 2013 á fót starfshóp sem ætlað var að skoða heildstætt fyrirkomulag markaðssetningar á Íslandi og á íslenskum vörum og þjónustu erlendis með það að markmiði að kanna hvort unnt væri að efla þá sókn sem verið hefur í markaðsstarfi undanfarin ár. Þess má geta að það var hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem á þeim tíma gegndi þeirri stöðu og setti af stað þann ágæta samstarfshóp. Síðan hefur verið unnið með það sem fram kemur og í rauninni er lögunum ætlað að innleiða þær hugmyndir sem þar koma fram um starfsemi Íslandsstofu.

Í upphafi frumvarpsins er tekið á því að Íslandsstofa sé sjálfseignarstofnun og komum við þar fyrst og fremst til móts við sjónarmið umboðsmanns Alþingis og reyndar líka Ríkisendurskoðunar um að skilgreina skýrt hvað Íslandsstofa er. Það má ljóst vera af umræðum sem voru hér á sínum tíma þegar lögin um Íslandsstofu tóku gildi að hv. þingmenn gerðu ekki ráð fyrir að um opinbera, alla vega ekki hefðbundna, stofnun væri að ræða. Það varð engu að síður niðurstaða umboðsmanns Alþingis þegar hann gerði á því úttekt. Í frumvarpsdrögunum var því tilgreint sérstaklega að ákveðin lagaákvæði sem lúta gjarnan að opinberum rekstri ættu ekki við í þessu tilfelli.

Meiri hluti hv. utanríkismálanefndar leggur til að 1. og 2. efnisgrein 1. gr. orðist svo:

„Íslandsstofa er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá.“

Íslandsstofa er undanþegin tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og gilda ákvæði stjórnsýslulaga þá ekki um hana.

Aftur á móti varð töluverð umræða í nefndinni um upplýsingalögin. Í upphaflegu frumvarpsdrögunum var gert ráð fyrir að upplýsingalögin giltu ekki um Íslandsstofu en meiri hlutinn telur að það sé eftir sem áður sé mikilvægt og lagði þar af leiðandi til breytingu á 1. gr. frumvarpsins.

Við leggjum áherslu á að gætt verði gegnsæis í starfsemi Íslandsstofu og hugað að sérstökum hæfisreglum.

Þegar kom að umræðu um lög um opinber innkaup var í frumvarpinu gert ráð fyrir að þau giltu ekki. Við frekari skoðun og meðferð málsins var rætt hvort tiltaka ætti það sérstaklega og komu fram þau sjónarmið að rekstrarform Íslandsstofu gerði það að verkum að lögin giltu ekki um starfsemina og því óþarfi að undanskilja lögin sérstaklega. Nefndin telur þó rétt að ef upp koma tilvik í starfsemi Íslandsstofu sem lög um opinber innkaup ná yfir taki lögin til þeirra þátta. Við tökum því undir að þetta ákvæði verði fellt brott úr frumvarpinu.

Það hafði líka verið tilgreint í drögum að frumvarpinu að samkeppnislögin ættu ekki við. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kom fram gagnrýni á þann þátt og er það niðurstaða nefndarinnar að ekki sé þörf á því að tilgreina að þau eigi ekki við enda gildi lögin um alla starfsemi. Aftur á móti vísum við í meiri hluta hv. utanríkismálanefndar til þeirrar meginreglu að hvers kyns atvinnurekstur skuli falla undir samkeppnislög en bendum jafnframt á þau undanþáguákvæði sem eru í lögunum. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til breytingu á 1. gr. frumvarpsins, um að fallið verði frá því að undanþiggja starfsemi Íslandsstofu samkeppnislögum. Með því telur meiri hlutinn að tekinn sé af allur vafi um að frumvarpið sé í fullu samræmi við 53. og 54. gr. EES-samningsins.

Meiri hlutinn áréttar þó að Íslandsstofa er samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs. Starfsemi Íslandsstofu byggist á því að Íslandsstofa og íslensk fyrirtæki vinni sameiginlega að verkefnum sem byggi undir og stuðli að útflutningi og markaðssetningu á vörum og þjónustu fyrirtækja erlendis. Í slíku umhverfi er alltaf fyrir hendi einhvers konar samráð, en við teljum að samstarf þetta falli innan þess ramma sem löggjafinn hefur þegar markað í 15. gr. samkeppnislaga.

Töluverð umræða skapaðist í nefndinni um útflutnings- og markaðsráð sem hefur það hlutverk að marka stefnu til lengri tíma um útflutnings- og markaðsmál þjóðarinnar. Þar er horft til þess að sem flest sjónarmið heyrist og var í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir að 29 aðilar ættu sæti í markaðsráði, skipaðir bæði af Samtökum atvinnulífsins og ráðuneytum, opinberum aðilum. Við leggjum til að þetta ágæta ráð stækki enn frekar og verði 31 manna. Við það bætist að Samband íslenskra sveitarfélaga og samstarfshópur markaðsstofa landshlutanna tilnefni í ráðið. Með því teljum við að tryggt sé að sjónarmið landsins alls og markaðsstofur landshlutanna fái aukið vægi. Þá leggjum við líka til að umhverfis- og auðlindaráðherra sé einn þeirra tíu fulltrúa sem skipaðir eru í ráðið án tilnefningar. Þess má jafnframt geta að í ráðinu eru bæði fleiri ráðherrar og þingmenn þeirra þingflokka sem ekki eiga sæti í ríkisstjórn. Er þá fyrst og fremst hugsað að þarna náist breið sátt um þá stefnu sem verið er að marka til lengri tíma.

Stjórn Íslandsstofu er í dag sjö manna en gert var ráð fyrir í frumvarpsdrögunum að hún yrði fimm manna. Það fékk allmikla umræðu innan nefndarinnar og að lokum varð samkomulagið að við leggjum til að þeim fjölda verði ekki breytt þannig að í stjórn Íslandsstofu sitji áfram sjö fulltrúar. Þá teljum við mikilvægt að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipi fulltrúa í stjórnina og er það fyrst og fremst í ljósi þeirra málaflokka sem undir þann ráðherra heyra og snúa að nýsköpun, hugviti og ferðamennsku. Þannig gerum við ekki breytingu á því að Samtök atvinnulífsins hafi enn þá meiri hluta í stjórninni eins og gert var ráð fyrir í upphafi og skipa þeir fjóra fulltrúa, utanríkisráðherra tvo fulltrúa og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra einn.

Ákveðin umræða skapaðist jafnframt í nefndinni um Ríkisendurskoðun og hlutverk hennar við Íslandsstofu en lagt hafði verið til af ráðuneytinu að setning um að ríkisendurskoðandi endurskoðaði reikningana, sem var setning sem fallið hafði burt úr gildandi lögum, kæmi inn aftur. En eftir samtal við Ríkisendurskoðun og skoðun á því fellst nefndin á að það eigi ekki við vegna þess að í raun er það hlutverk Ríkisendurskoðunar að hafa eftirlit með stofnunum sem eru með staðfesta skipulagsskrá. Við féllumst á þær athugasemdir Ríkisendurskoðunar að það væri óbreytt frá öðrum sjálfseignarstofnunum.

Við gerum breytingar á gildistökuákvæðunum þannig að lögin taka gildi 1. september í stað 1. júlí. Jafnframt gerum við tillögu að nýju bráðabirgðaákvæði sem gerir ráð fyrir að ráðherra skuli gera úttekt innan þriggja ára á starfsemi Íslandsstofu og útflutnings- og markaðsráði, annars vegar til að kanna hvort markmið laganna hafi náð fram að ganga en hins vegar er bráðabirgðaákvæði um að ráðherra skuli skipa starfshóp til að fara yfir rekstrarformið í ljósi þess að mikil umræða skapaðist um það og var það reyndar líka tilgreint í greinargerðinni með frumvarpsdrögunum að ekki væri til neitt heppilegt rekstrarform fyrir fyrirbæri eins og Íslandsstofu, sem er samstarfsvettvangur milli opinbers aðila og (Forseti hringir.) atvinnulífsins.

Hæstv. forseti. Ég gæti án efa talað meira um þetta ágæta frumvarp en ég sé að tíminn er á þrotum.