148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér örstutt inn í þessa umræðu um nefndarálit og breytingartillögur við frumvarp til laga um Íslandsstofu. Ég ætla ekki að ræða málið í heild sinni en af því að ég kom inn á tengslin við markaðsstofur landshlutanna í 1. umr. langar mig að fagna sérstaklega þeirri breytingu sem lögð er til varðandi þær. Eins og kemur fram í nefndaráliti komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að fjölbreyttur hópur ætti sæti í útflutnings- og markaðsráði. Lagt er til að í hóp þeirra sem eiga þar sæti bætist tveir fulltrúar sem tilnefndir verða til setu í ráðinu, annars vegar af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hins vegar af samstarfshópi markaðsstofa landshlutanna.

Þetta tel ég afskaplega mikilvægt og í samræmi við önnur markmið stjórnvalda um dreifingu ferðamanna sem víðast um landið. Ég get til dæmis bent á að hér áðan vorum við að samþykkja byggðaáætlun en eitt af verkefnunum eru áfangastaðaáætlanir sem unnar eru af markaðsstofunum og þurfa óhjákvæmilega að tengjast starfi Íslandsstofu. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli að þessi tillaga skuli vera komin fram sem tengir saman starfsemi markaðsstofanna og Íslandsstofu því að það er alltaf erfitt að hafa samstarf þegar samstarfsvettvangurinn og samstarfsleiðirnar eru ekki skilgreindar.