148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá mörgum öðrum sem hafa rætt málefni Íslandsstofu, að gott er að finna þennan sameiginlega þráð, sameiginlega hljóm í þá veru að vilja efla Íslandsstofu frekar, skerpa og skýra hlutverk hennar og til þess var leikurinn kannski gerður og ekki síst til að reyna að útkljá þá óvissu sem er um stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar. Ég tek eindregið undir að það skref sem er verið að taka með þessu frumvarpi er rétt, þ.e. að skerpa á því að þetta verði sjálfseignarstofnun, einkaréttarleg stofnun, og þá ekki lengur undir því sem flokkast undir opinberar stofnanir. Það er mikilvægt skref að taka fyrir útflutningsverðmæti okkar, hvernig við ætlum að ýta undir ímynd og auka verðmæti okkar í útflutningi, þá skiptir þetta máli.

En þetta hefur verið nokkuð snúið því að segjast verður eins og er að frumvarpið sem kom frá utanríkisráðuneytinu var einfaldlega ekki nægilega burðugt og ekki nægilega vel unnið. Þess vegna vil ég beina þökkum mínum til allra nefndarmanna í utanríkismálanefnd og ekki síst formannsins og framsögumannsins sem hafa gert sitt besta til að vinna úr þessu máli. Ég undirstrika að markmið okkar er að ýta undir hlutverk Íslandsstofu, gera það skilvirkara, dýnamískara þannig að Íslandsstofa geti verið raunverulegur stuðningsaðili fyrirtækja okkar þegar kemur að útflutningi.

Hægt er að draga fram og má vissulega spyrja, eins og ég hef spurt sjálfa mig: Af hverju erum við að taka þennan snúning? Markaðsgjaldið er tekið af fyrirtækjunum, við erum nýbúin að lögfesta mikilvæg lög um opinber fjármál, líka hvað markaða tekjustofna varðar, og þá erum við í raun komin með fyrsta málið sem er undanþága frá mikilvægri meginreglu um meiri aga í ríkisfjármálunum. En fyrirtækin og atvinnulífið hefur mjög þrýst á þetta, skiljanlega. Þau vilja vera í þessu sambandi sem verður að vera skilvirkara, dýnamískara, við hið opinbera til að ýta undir markvissari markaðssetningu.

En ég velti líka fyrir mér hvort atvinnulífið hefði ekki sjálft getað tekið þennan kaleik og gert síðan samstarfssamning við ríkið. En eftir mikið samráð, í rauninni áralangt sem hófst 2013 eða 2014, er þetta lendingin. Ég vil styðja við hana.

Ég vil beina því til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að koma þarf með frumvarp á nýju þingi sem ýtir undir og skerpir umhverfi þess forms þegar hið opinbera fer í samstarf við einkaaðila. Ég vona að það verði meira af því. Ég get vel séð fyrir mér samstarf ríkisins ekki bara aukið við einkaaðila og ekki bara á sviði heilbrigðismála, við getum talað líka um samstarf um flugvelli, rekstur þeirra og uppbyggingu, og samgöngumannvirki og fleira. Það þarf að koma fram frumvarp, rammalöggjöf um PPP eins og það er kallað, þar sem skerpt er á þessu máli.

Aðeins varðandi Íslandsstofu sjálfa, ég sé að tíminn rennur hér mjög hratt frá okkur, þá vil ég taka undir að þær breytingar sem hafa verið gerðar á málinu í meðferð nefndarinnar eru mjög til bóta. Það er verið að skerpa á samkeppniseftirlitinu eða -hlutverkinu, verið er að draga fram upplýsingalögin að hluta, sem er fínt. Og síðan ekki síst að tengja markaðsstofurnar eins og ábendingar voru um hjá gestum nefndarinnar, að marka þeim skýrara hlutverk en nú er. Það er allt gott og blessað.

Ég tek undir að hluta til það sem kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem er með minnihlutaálit. Ég hefði viljað sjá myndina skýrar. Þess vegna gagnrýni ég það að frumvarpið var ekki nægilega vel unnið. Ekki var búið að vinna forvinnuna. Það var ekki búið að vinna þetta heildstæða. Við viljum að fjármunir okkar sem koma frá ríkinu séu í sem bestri notkun. Við erum ekkert fullviss um það, því að verkefni eru enn þá á víð og dreif um ráðuneytin, um hinar ýmsu stofnanir, og við erum ekki með þá heildstæðu mynd sem ýtir undir það að við gerum hvað best við getum til að efla tækifæri okkar og sókn þegar kemur að útflutningi íslenskra afurða. Það er að mörgu leyti ákveðið tækifæri sem við misstum af, og það er á ábyrgð utanríkisráðherra.

En það hefur engu að síður verið unnið vel í nefndinni, þetta er mál sem ég er á, ég er á meirihlutaáliti nefndarinnar, af því að ég tel málið hafa batnað mjög í meðförum nefndarinnar, en að mínu mati er ekki búið að fullvinna það enn þá. Ég hvet ríkisstjórnina til að ná heildstæðri mynd (Forseti hringir.) á þetta þannig að Íslandsstofa geti raunverulega fúnkerað í samræmi við það hlutverk sem henni er ætlað í þessu frumvarpi.