148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir m.a. frá Seðlabanka Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum sparifjáreigenda og Hagsmunasamtökum heimilanna.

Nefndin hefur áður fjallað um og afgreitt þingsályktunartillögu um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar, 135. mál. Málið hlaut ítarlega umfjöllun í nefndinni og nefndarálit með breytingartillögu var samþykkt á fundi nefndarinnar 2. maí síðastliðinn. Alþingi samþykkti einróma þingsályktunina með þeim breytingum sem nefndin lagði til á þingfundi 8. maí síðastliðinn, samanber þingsályktun nr. 17/148 á þingskjali 951.

Með samþykkt þingsályktunartillögunnar er fjármála- og efnahagsráðherra falið að „skipa starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar eða að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar“. Starfshópnum er gert að horfa sérstaklega til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og meta hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti, sem og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kynnu að hafa á vísitölur, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans, en þær tillögur voru kynntar í liðinni viku. Ráðherra skal flytja Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum fyrir árslok 2018.

Með hliðsjón af samþykki Alþingis á framangreindri þingsályktunartillögu þykir meiri hlutanum liggja í augum uppi að sá starfshópur sem skipaður verður á grundvelli hennar fjalli um efni þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar. Leggur meiri hlutinn því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu.

Undir nefndarálitið rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.