148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[23:18]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg í hvaða innantökum ég er staddur hérna (Gripið fram í.) en kannski ég komi að því, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, ef ég fæ að nýta þessa pontu til að tjá mig án frammíkalla sem hv. þingmanni eru orðin nokkuð töm, (Gripið fram í.) þó kominn á þennan virðulega aldur, nýkominn, og óska ég aftur til hamingju með afmælið.

Ég verð að játa að ég skil eiginlega ekki alveg hvað er hér á seyði nema, ég eins og ég segi, að hér séu einhverjar innantökur fyrrum flokksfélaga, mikil sárindi út í fyrrum félaga sína og það er gott og blessað, það er gott að tala um það þegar maður er sár.

Mér er mikill heiður að komast inn á þessa löngu mælendaskrá Miðflokksins, ég held að það séu nú bara allir þingmenn hans sem komist hafa einu sinni ef ekki tvisvar á mælendaskrána. Það er gott að fá að komast að og spjalla um þessi mál.

Vegna ýmissa ummæla hér á undan um orð hv. þm. Willums Þórs Þórssonar er ég ekki alveg viss um að fólk sem er ekki alveg inni í málum átti sig á því um hvað málið snýst. Þess vegna langar mig, með leyfi forseta, að lesa upp þingsályktun sem hv. þm. Willum Þór Þórsson var að ég hygg 1. flutningsmaður að, og var samþykkt 8. maí síðastliðinn. Nú er ég sagnfræðingur og man ýmislegt aftur tímann, en ég man líka það sem gerðist fyrir einum mánuði. Ég les, með leyfi forseta:

„Þingsályktun um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar.

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar eða að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti, sem og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kynnu að hafa á vísitölur, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum fyrir árslok 2018.“

Hljómar þetta kunnuglega, virðulegur forseti? Já, í það minnsta í eyrum mínum. Hér er ansi margt sem er að finna í þeirri þingsályktunartillögu og því máli sem við erum að ræða. Koma svo hér og leyfa sér að láta eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson sé með einhvern gunguskap, eftirgjöf, og ég veit ekki hvað og hvað hefur verið látið falla hérna af því að hann vill standa við það sem var samþykkt fyrir mánuði síðan, það þykir mér mjög sérkennilegt. Ég sé að hv. þm. og flutningsmaður, Þorsteinn Sæmundsson, samþykkti tillögu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar. Í hvaða leikriti erum við stödd hér, virðulegi forseti?

Síðan stendur fólk hér í einhverjum innantökum sem ætti kannski heima annars staðar en í þessum sal með frýjuorð á fyrrum félaga sína. Ég segi alveg eins og er að margt í máli þeirra sem hér hafa talað á undan mér fékk mig til að hugsa um hvort þetta væri kannski ágætismál. En þegar stórkarlalegu yfirlýsingarnar um gunguskap og að það vanti bara djörfung og dug og ég veit ekki hvað og hvað fóru að dynja á hlustum mínum frá hverjum stuðningsmanna tillögunnar á fætur öðrum, þá sannfærðist ég um að rétta leiðin til að skoða hvort verðtryggingin ætti heima í húsnæðisliðnum væri sú sem hv. þm. Willum Þór Þórsson lagði fram og gott ef ekki allir þeir sem hafa tjáð sig í kvöld samþykktu fyrir einum mánuði síðan.