148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Hér stendur til að keyra í gegn fjölda vanbúinna mála, mála sem í sumum tilvikum eru það vanbúin að meira að segja stjórnarliðar viðurkenna að þau séu ekki tilbúin. Engu að síður stendur til að keyra þetta allt hér í gegn, klára í dag. Með öllum þeim göllum sem leynast í þessum vanbúnu málum.

Samt hefur stjórnarandstaðan á þessu þingi sýnt ríkisstjórninni og meiri hlutanum ótrúlegt umburðarlyndi. Í síðustu viku var enn eina ferðina ákveðið að treysta meiri hlutanum, gefa eftir, fallast á í rauninni, allar beiðnir meiri hlutans, meira og minna, í trausti þess að sagan myndi ekki endurtaka sig í samræmi við það sem gerðist hér eftir þinghlé vegna sveitarstjórnarkosninga þegar það samkomulag sem gert hafði verið fyrir hlé var svikið. Nú sjáum við á lokadeginum svik á ný. Það stendur ekki til af hálfu meiri hlutans að standa við það samkomulag sem gert var. (Forseti hringir.) Þá er af hálfu stjórnarandstöðunnar væntanlega ekkert samkomulag til staðar.