148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að biðja þingmenn að tala ekki niður til forseta Alþingis og segja að hann sé ekki forseti allra. Það er ekki hans að stjórna þingnefndum og afgreiðslu þeirra. Það gerum við þingmenn í nefndunum. Hér er beinlínis farið fram á að forseti skipti sér af því hvernig nefnd afgreiðir málið. Það eigum við ekki að gera. Málinu var ekki flaggað með neinum hætti, að fólk væri ósátt við málsmeðferðina, þegar það var tekið til afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd. Það var fyrst gert áðan á fundi með þingflokksformönnum og forseta.

Ég ætla líka að minna á að Miðflokkurinn skipti um hest í miðri á. Hann var með mál sem var klárt til afgreiðslu, þ.e. staðarval þjóðarsjúkrahússins, sem hann ákvað svo, vitandi að það yrði fellt í þingsal, að skipta um og setja þetta mál á dagskrá. Þá var heldur ekki nefnt að það mál þyrfti að fá einhverja tiltekna afgreiðslu og Miðflokkurinn getur ekki ákveðið að nefnd eigi að afgreiða mál með einhverjum tilteknum hætti, sama hvort það er í þinglok eða hvenær á vertíðinni það er sem málin eru til umfjöllunar. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur fengið, eins og önnur mál á þinginu, alveg ágæta málsmeðferð.