148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta og líka hæstv. forsætisráðherra að gera hlé á þingfundi til að þingflokksformenn og formenn geti sest niður og farið yfir málið. Ég skildi það allan tímann þannig að sáttin fælist í því að við báðum fyrst um að tvö mál yrðu afgreidd en síðan var þeim fækkað í eitt af hálfu stjórnarandstöðunnar með því fororði að málin yrðu afgreidd í þingsal. Það kom alveg skýrt fram að það mál … (Gripið fram í: Viltu …?)

Hæstv. forseti. Get ég fengið hlé frá órólegum þingmönnum Vinstri grænna í hliðarsal?

(Forseti (SJS): Það á að gefa ræðumönnum gott hljóð, já.)

Já. Takk. Þess vegna vil ég beina því eindregið til hæstv. forsætisráðherra og forseta að gera fundarhlé því að ég skildi þetta allan tímann þannig að stjórnarandstaðan ætti að fá til afgreiðslu mál í þingsal, ekki út frá frávísunartillögu nema þeir flokkar yrðu sáttir við það, eins og Píratar samþykktu og sættu sig við. Í byrjun átti að fara með þjóðarsáttartillögu okkar Viðreisnar í þann farveg að vísa henni til ríkisstjórnar. Við sögðum: Nei, við viljum fá afstöðu. Við erum ekki að biðja um samþykki. Við tökum alveg höfnuninni, (Forseti hringir.) en við viljum fá afstöðu þingsins. Og það er það sem Miðflokkurinn er að fara fram á. Við skulum setjast yfir þetta í rólegheitum áður en þingheimur fer hér upp um allt og æsir sig. Ég mæli eindregið með því að hæstv. forseti geri hlé á þingfundi hið fyrsta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (SJS): Forseti virðir rétt þingmanna til að óska eftir því að ræða fundarstjórn hans.)