148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, nefndi áðan var samið um að það mál sem er hér til umræðu fengi afgreiðslu. En hvað er frávísunartillaga? Frávísunartillaga er tillaga um að mál fái ekki afgreiðslu, sé ekki afgreitt, svoleiðis að það að leggja fram slíka tillögu og koma í veg fyrir að málið fái eðlilega afgreiðslu í atkvæðagreiðslu felur í sér svik á því samkomulagi sem gert var. En hvers vegna í ósköpunum skyldi stjórnarmeirihlutinn ekki treysta sér í atkvæðagreiðslu um þetta mál? Mér finnst blasa við, virðulegur forseti, að sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins vilji ekki verða berir að því eina ferðina enn að svíkja eitt af meginkosningaloforðum sínum, eins og öll hin meginkosningaloforðin hafa verið svikið nú þegar. Þess vegna vilja menn koma sér hjá því með öllum ráðum að þurfa að taka afstöðu, að þurfa að greiða atkvæði um mál sem flokkurinn gerði mikið úr og taldi eitt af stærri málum sínum, hefur nú tækifæri til að samþykkja það (Forseti hringir.) en treystir sér ekki til að greiða atkvæði. (Gripið fram í.)