148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér um ræðir fór til efnahags- og viðskiptanefndar snemma í mars. Í dag er 12. júní. Nú sit ég ekki sem aðalmaður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, en ef þetta mál er svona vanreifað, hvað var þá efnahags- og viðskiptanefnd að gera við það allan tímann? Síðustu umsagnir um málið komu fram snemma í apríl. Hvað var mönnum að vanbúnaði? Síðan þegar okkur er boðið upp á — ég segi boðið upp á — að málið sé tekið út með litlum fyrirvara þáðum við það að sjálfsögðu.

En það er eitt sem ég verð að fá svar við. Formaður Framsóknarflokksins sagði áðan að málið hefði fengið afgreiðslu sem hæfði því. Nú spyr ég: Hvaðan fær hæstv. samgönguráðherra vald til þess að ákveða hvaða málsmeðferð hæfir einstökum þingmálum? Ég spyr af því að ég hélt að við værum bara undir þingsköpum og ekki einhverjum (Forseti hringir.) geðþótta eða hræðslu einstakra ráðherra við mál sem koma hér fram og koma óþægilega við kaunin á þeim.