148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki annað en furðað mig svolítið á því að því sé haldið hér fram að mál sem verður tekið á dagskrá í þessum þingsal og afgreitt með því að við ýtum á einhvern takka teljist ekki fullnaðarafgreiðsla á máli. Það er það, einmitt það að við klárum þetta hérna er fullnaðarafgreiðsla á máli.

Hvorki Miðflokkurinn né nokkur annar flokkur, ef því er að skipta, getur hins vegar ákveðið hvernig aðrir þingmenn, hvort sem er í þingnefndum eða í þessum sal, ákveða að haga málflutningi sínum, getur ekki ákveðið hvernig við teljum best að lenda málum eða greiða atkvæði. Ég skil ekki þetta upphlaup, verð ég að segja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)