148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[14:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem tala hafa á undan mér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég skil ekki Miðflokkinn og örugglega ekki í það síðasta. Ég sat bljúgur undir ræðu hv. þingflokksformanns Miðflokksins, Gunnars Braga Sveinssonar, í síðustu viku þar sem hann snupraði mig fyrir að ég skyldi vera hissa á því að fulltrúi Miðflokksins í hv. atvinnuveganefnd skyldi leggja fram tillögu í veiðigjaldamálinu, því að ég taldi að öðruvísi hefði verið samið um þau mál. Þá fór hv. þingflokksformaður með himinskautum yfir þeirri ósvinnu í þeim sem hér stendur að ætla að fara að hefta tillögufrelsi fulltrúa Miðflokksins í atvinnuveganefnd. Ég hlustaði bljúgur á og lærði. Nú hlusta ég á sama hv. þingmann fara með sömu himinskautum þar sem hann vill hefta tillögufrelsi annarra þingmanna en síns eigin flokks. (GBS: Þetta var ekki satt.) Hversu fáránlegur málflutningur er það? Menn tala hér kinnroðalaust. (GBS: Alltaf sama …) Þetta er algerlega ótrúlegt.