148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

565. mál
[14:55]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er kannski rétt að árétta að umræddar breytingartillögur voru samþykktar við lok 2. umr. Þær breytingartillögur voru mjög góðar og ég þakkaði fyrir þær á þeim tíma. Ég þakka jafnframt efnahags- og viðskiptanefnd fyrir framhaldsnefndarálitið sem tók á nokkrum af þeim gagnrýnispunktum sem ég og Píratar vorum með gagnvart þessu máli, en það tók ekki á þeim öllum. Enn eru útistandandi vandamál varðandi t.d. hugtakið „rafrænt veski“ eða „stafrænt veski“ sem ekki er enn þá skilgreint í frumvarpinu. Við óttumst að það muni leiða til þess að það verði til vandkvæða í framtíðinni. Það eru óljós atriði. Þetta er ný tækni sem er að þróast mjög hratt. Fyrir vikið treystum við okkur ekki til þess að styðja þetta mál að sinni, en það er mikilvægt að við tökum engu að síður á þessum atriðum varðandi peningaþvætti þannig að við erum augljóslega mjög beggja blands í þessu máli. Við viljum koma í veg fyrir peningaþvætti, en við viljum ekki að það sé gert með þeim hætti að það skapi slæmt fordæmi fyrir (Forseti hringir.) þessa nýju tækni.