aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Virðulegi forseti. Eins og mörg mál sem verið hafa á dagskránni undanfarið og verið hluti af því að reyna að klára þingið, er þetta eitt af þeim málum þar sem menn hafa svolítið einbeitt sér að því að laga eða bæta. Þarna eru þó vissulega atriði sem hefði mátt skýra betur, eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á. Það er eins og annað þingmál sem við erum með á dagskrá, varðandi Íslandsstofu þar sem er ekki er búið að skilgreina eða búa til lagaumgjörðina um það fyrirbæri sem við ætlum að breyta stofnuninni í. En við ætlum engu að síður að gera það. Við erum væntanlega að fara að samþykkja þingmál þar sem ekki er búið að skilgreina ákveðna hluti, gefa því heiti, eins og hv. þm. Smári McCarthy benti á, að skilgreina hvað stafrænt veski er, eins og hér var nefnt svo ágætlega.
Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að málið verði klárað, en það kann að vera að það þurfi að taka það upp aftur í haust til að eyða vafamálum, eins og fram kom áðan.