148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að vera aðeins ósammála þeim sem á undan hafa komið. Ég hef ekki fengið fleiri tölvupósta um nokkurt mál en þetta og voru þeir voru allir sömu skoðunar, sem sendu mér tölvupóst í málinu, en reyndar ekki þeirrar skoðunar sem endanleg tillaga gengur út á. Það segi ég nú kannski í smákerskni.

Það er ýmislegt sem fært var til betri vegar, bæði í nefndinni og milli umræðna. Meðal annars átti hæstv. forseti Alþingis oddaatkvæði hvað það varðar að leyfa svokallað veip á veitingastöðum. Skynsamleg skýring hv. þm. Brynjars Níelssonar þótti mér nokkuð góð hvað það varðar, að fólki væri treyst fyrir því að koma með stórhættuleg óargadýr inn á veitingastaði en mætti ekki koma með blöndu af vatni og lyktarefnum. Að því sögðu reikna ég með að styðja málið í heild sinni og vona að það verði til farsældar.