148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eitt vildi ég nefna til viðbótar varðandi hættuna eða það sem maður þarf að hugsa sérstaklega að samhliða því að við samþykkjum væntanlega þetta frumvarp á eftir. Eitt er heilbrigðisspurningin sem ég nefndi áðan, um hvort þetta væri líklegt til þess að hjálpa fólki að hætta að reykja eða hugsanlega að venja einhverja á notkun nikótíns. Ég ætla ekki að fjalla meira um það heldur benda á að það er önnur hætta sem er sú að sum þessara tækja hafa sprungið og reynst þannig skaðleg, sprungið í vasa fólks eða jafnvel við notkun.

Það þarf því að gæta þess, virðulegur forseti, að þau tæki sem eru á markaði hér uppfylli öryggiskröfur hvað það varðar. Við viljum ekki að fólk lendi í því að stórskaðast af notkun þessara tækja. Langflest eru örugglega örugg og ekkert út á þau að setja. En það þarf að passa upp á að tæki sem hafa reynst hættuleg annars staðar, hafa sprungið, séu ekki í sölu á Íslandi, og (Forseti hringir.) gæta þar með að neytendavörnum í þessu máli.