148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í lokaorðum álits þeirra sem voru í minni hluta í velferðarnefnd, hv. þingmanna Halldóru Mogensen, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Guðmundar Inga Kristinssonar, segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi látast á hverju ári mörg hundruð manns af völdum reykinga. Sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti að rafrettur geti komið að miklum notum fyrir þá sem þurfa að hætta reykingum.“

Ég held að við getum flest verið sammála um þetta. Þetta er einn af mikilvægum þáttum í því að skilgreina betur það umhverfi sem þessi tæki eru seld í og notuð í. Auðvitað höfum við einhver áhyggjur af því að aukin notkun eða aðgengi að þessum tækjum geti mögulega haft einhver neikvæð áhrif á börn eða unglinga en ég held að með þessu máli sé reynt að taka utan um það líka. Þess vegna held ég að þær breytingartillögur sem hér hafa verið lagðar fram séu allar til mikilla bóta.