148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þar sem ekki var orðið við því að ræða fundarstjórn á milli síðustu tveggja mála sem gengu til atkvæða vildi ég fá að koma hér upp og lýsa yfir vonbrigðum með þá stöðu sem uppi er hvað það varðar að ekki virðist í neinu vera vilji til þess hjá stjórnarflokkunum sem sá flokkur sem ég er á þingi fyrir taldi sig hafa náð samkomulagi um, þ.e. hvernig umræðum og afgreiðslu mála yrði háttað til að nálgast það að frumvarp um vexti og verðtryggingu yrði afgreitt í bærilegri sátt við Miðflokkinn. Er Miðflokkurinn þar með eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem fær þær trakteringar að mál skal afgreiðast í fullri ósátt við þann flokk sem flutningsmaður tilheyrir.

Ég ítreka að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þá stöðu sem uppi er. Það á eflaust eftir að marka daginn sem fram undan er.