148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að ekki varð árangur af fundi þingflokksformanna áðan, er það að sjálfsögðu miður. Eftir stendur þá sá ágreiningur sem er uppi varðandi það hvernig ljúka á máli Miðflokksins. Sá er hér stendur sat nokkra fundi um hvernig ætti að afgreiða þau mál. Það er alveg ljóst að af hálfu stjórnarandstöðunnar átti að afgreiða þau í þingsal eða í samráði við flokkana, en ekki vísa þeim út og suður eingöngu eftir geðþótta stjórnarmeirihlutans. Hvað verður svo í atkvæðagreiðslu verður vitanlega hver og einn að gera upp við sig. Hér er engin skuldbinding og engin kallar eftir því að menn skuldbindi sig til að samþykkja mál Miðflokksins, alls ekki, heldur einfaldlega að staðið verði við það að málið fái afgreiðslu eins og um var rætt og um var samið. Ég get ekki að því gert þótt einstaka formenn stjórnmálaflokka kannist ekki við það sem samið er um. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þeirra vandamál.