148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil undirstrika að ég hef mikla trú á hæstv. forseta til að leiða þetta mál til lykta. Við vorum reyndar búin að gera ráð fyrir því að eftir farsælar málalyktir síðustu daga væri hægt að klára þingið bæði í sátt og með ákveðinni reisn, hugsanlega seint í kvöld, en mér sýnist að á meðan málið er óútkljáð muni okkur lítið miða áfram. Ég held að þingið verði hér áfram næstu daga.

Ég beini því, eins og ég hef áður gert, eindregið til hæstv. forseta að reyna að miðla málum í þessu efni. Fyrir mína parta og félaga minna í Viðreisn er ekkert mál fyrir okkur að taka afstöðu í þessu máli. Það felst engin skuldbinding í því að samþykkja það, en það er eðlilegt að koma til móts við þá eðlilegu kröfu Miðflokksins að fá afgreiðslu á málinu, þ.e. afstöðu þingsins og þingmanna til málsins sem slíks.

Ég óttast það ekki, ég get sagt hver skoðun mín er, en mér finnst að Miðflokkurinn eigi að komast (Forseti hringir.) með reisn frá þessu. Það er alveg óþarfi að koma svona fram við Miðflokkinn eins og hæstv. ríkisstjórn gerir með þessari aðferðafræði.