148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Bara svo það sé sagt úr pontu tók ég þátt í drjúgum hluta þeirra funda þar sem þessi mál voru til umræðu. Það er alveg ljóst að við, ég sem fulltrúi Miðflokksins og aðrir fulltrúar í þeim samningaviðræðum sem komu að þeim fyrir hönd Miðflokksins, vorum ekki að semja um það að málinu yrði vísað frá, eins og nú eru áform uppi um af ríkisstjórnarflokkunum. Það er auðvitað hártogun að horfa til þess að það sé talin afgreiðsla þingsins að ríkisstjórnarflokkarnir taki sig til og horfi til þess að gæta aflsmunar hvað það varðar að vísa málinu frá. Það er ekki það sem um var samið. Það er ekki það sem um var talað. Í ljósi þess hve ólík sýn manna var á það samkomulag sem gert var fyrir fundarhlé má segja að við stjórnarandstöðuflokkarnir hefðum átt að gera kröfu um að allt sem að málinu sneri væri skriflegt. En maður vonaði að við værum ekki komin þangað. Staðan er snúin.