148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er yfirlýstur ásetningur núverandi hæstv. forsætisráðherra að auka traust í stjórnmálum. Því hefur verið og er enn haldið til mestu dyggða sem til eru ef menn eru menn orða sinna. Því miður er það þannig að í ríkisstjórnarmeirihlutanum nú eru menn ekki menn orða sinna. Þeir standa ekki við gerða samninga. Þeir standa ekki við samninga sem eru handsalaðir. Það er vont. Það gefur vond fyrirheit inn í restina af kjörtímabilinu vegna þess að nú er ljóst að öll samskipti við ríkisstjórnarmeirihlutann verða héðan í frá að vera skrifleg og vottuð. Það er mjög illt og eykur ekki traust manna á milli.

Ég þekki hæstv. forseta af því að vera drengskaparmann. Þess vegna bið ég hann enn einu sinni að beita áhrifum sínum til þess að hafa góð áhrif á stjórnarmeirihlutann og fá hann til að standa við samninga sína þótt þeir séu ekki skriflegir. Ég vil biðja hann um það svo að við getum haldið áfram þingstörfum og klárað þau í sameiginlegum friði.