148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[15:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil óska Flokki fólksins innilega til hamingju með áfangann. Það er ánægjulegt að fá þetta mál til afgreiðslu, enda mikið réttlætismál og dæmi um það hvernig við forgangsröðum mjög aftarlega réttindum þeirra sem mögulega búa við einhvers konar fötlun eða eiga um sárt að binda að einhverju leyti. Það mætir oft afgangi að finna leiðir til að koma til móts við þá hópa. Það hefur skipt okkur máli og við höfum tekið eftir því að það skiptir Flokk fólksins mjög miklu máli að setja það í forgang að mæta þeim sem hafa mætt afgangi í kerfinu hingað til. Fyrir það erum við þakklát, enda styðjum við þetta mál og þar á meðal hv. þingmaður og formaður velferðarnefndar, Halldóra Mogensen, sem er á málinu. Enn og aftur: Til hamingju Flokkur fólksins.