148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[15:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á því að þótt margir hafi rætt þetta mál undir þessum lið er mikill samhljómur um það engu að síður. Segja má að meira og minna allir sem hafa tjáð sig um atkvæðagreiðsluna hafi talað á mjög svipuðum nótum. Það er vegna þess að í fyrsta lagi er þetta gott mál, þetta er réttlætismál, en líka vegna þess að menn unnu málið þannig að þeir vildu ná samstöðu um það. Gerðar voru ákveðnar breytingar en niðurstaðan varð sú að allir töldu sig geta samþykkt málið. Það er ein leið, eins og ég nefndi dæmi um hér áðan, virðulegur forseti, það er ágætt þegar hægt er að fara þá leið. En svo er hitt til í dæminu varðandi mál frá stjórnarandstöðuflokkum, að menn sammælist um að málin skulu kláruð, þ.e. að geta greitt um þau atkvæði án þess að endilega ætla að ná öllum á sömu skoðun í málunum. Það á við um eitt mál sem samið var um sem hluta af þinglokum, (Forseti hringir.) en nú virðist ekki einu sinni eiga að standa við að leyfa því máli að fara í atkvæðagreiðslu.