148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[15:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það var ágætt að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á það í lokin sem ég náði ekki að koma inn á í lok ræðu minnar. Þegar mál sem er hluti af þinglokasamkomulagi er tekið úr þeim farvegi sem því er upphaflega ætlaður hlýtur það auðvitað að gerast í samráði og í sátt við þá sem fyrir málinu tala. Það getur ekki verið skilningur manna sem komið hafa að samningagerð að það eigi að vera með einhverjum öðrum hætti. Það er eftir á útúrsnúningur. Ég held að það sé best að við tölum um það sem slíkt, því að það gengur ekki að eitt mál sé tekið úr sínum farvegi og hanterað þannig að það sé í fullkominni ósátt við þann þingflokk sem fyrir því mælir.