148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að tala um annað í þessari ræðu en úr því að hæstv. forseti kom inn á þetta samtal er best að segja að þau skilaboð bar ég til forseta í því ljósi að ekki væri um neitt að semja sem mætti sjónarmiðum okkar í Miðflokknum að nokkru leyti. Þó að ég hafi komið þeim skilaboðum til hans þær mínútur sem voru teknar í samtal eftir fund þingflokksformanna áðan með forseta þá gef ég mér að það gæti verið svigrúm til að ná einhverri lendingu þegar líður á daginn. Þess vegna hef ég hvatt hæstv. forseta til að gera hlé á fundi aftur. Ég er ekki að leggja til að hæstv. forseti hlutist til um það með beinum hætti að frávísunartillagan verði dregin til baka með handafli, en hæstv. forseti er í þeirri stöðu að geta miðlað málum hér inni og boðað menn til fundar sé til þess vilji. En ég ítreka að í því stutta samtali sem ég átti eftir þingflokksfundinn var ekkert á borðunum sem gaf til kynna að líkur væru til að málið leystist þar.