148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það að hæstv. forseti skyldi draga úr hatti sínum tvo málshætti og spakmæli fyrir okkur þingmenn og langar að svara honum með tveimur. Sá fyrri er þannig: Þolinmæðin þrautir vinnur allar. Ég trúi því að við getum unnið okkur í gegnum þetta mál og þennan dag með þolinmæði og þrautseigju. Hinn málshátturinn er hins vegar: Oft er gott það sem gamlir kveða. Sem gamall maður ætla ég að beina því enn einu sinni til forseta að hann hlutist nú til um að gert verði hlé á fundi, að fundað verði með öllum hlutaðeigandi, að forseti gefist ekki upp fyrr en í fulla hnefana við að ná hér samkomulagi sem allir geta sætt sig við þannig að við getum lokið þingstörfum með sómasamlegum hætti.