148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Það hlýtur að valda hæstv. forseta áhyggjum að stjórnarmeirihlutinn sem hann tilheyrir skuli ekki vera reiðubúinn til þess að greiða atkvæði um tiltekið mál. Hæstv. forseta hlýtur að þykja þetta dularfullt, að menn skuli ekki einu sinni treysta sér til þess að greiða atkvæði um mál á Alþingi. Þeir eru að sjálfsögðu frjálsir til að hafa sína afstöðu til málsins, greiða atkvæði eins og þeir vilja, en vilja bara ekki greiða atkvæði. Fyrir forseta Alþingis hlýtur það að vera áhyggjuefni að menn séu tilbúnir til að setja þingstörfin og meira að segja lok þeirra í uppnám vegna þess að þeir þora ekki að greiða atkvæði. Það hlýtur að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum og vera hæstv. forseta hvatning til þess að skerast í leikinn og hvetja þá þingmenn sem óttast að greiða atkvæði til að manna sig upp í að ýta á takkann, hvaða lit sem menn vilja ýta á.