148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér þykir stjórnarmeirihlutinn ansi lítið lausnamiðaður í þessu máli. Með fullri virðingu fyrir þeim málum sem bíða afgreiðslu og voru sett á dagskrá í dag þá bíða tvö risamál, þ.e. persónuverndarmálið og síðan Schengen og útlendingamálin. Þau mál eru þess eðlis að ekki er annað hægt en krefjast þess að þau fái sína umræðu, faglega umræðu þótt knöpp sé, og við vitum öll ástæðuna fyrir því. Það eitt og sér er nálægt því að vera óboðlegt en engu að síður var um það samið og við munum standa við það svo lengi sem staðið er við aðra þætti samkomulagsins. En þau mál verða ekkert útkljáð undir þeim skugga sem hér er, að menn upplifa það að ekki hafi verið staðið við samkomulagið. Það verður að gera kröfu til þess að stjórnarmeirihlutinn gangi á undan með góðu fordæmi og þingflokksformenn boðaðir til fundar, hvort sem það er með hæstv. forseta Alþingis eða án. Það verður að leysa þennan hnút. Fjölmörg mál bíða, sum þeirra risastór. Við verðum að líta upp úr þessu og finna lausnir á stöðunni.