148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil koma upp til að árétta og taka undir með hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur um að besti bragurinn væri að formenn kæmu saman og ræddu sig niður á sameiginlega niðurstöðu í málinu. Ég tel reyndar að fundarstjórn forseta hafi verið með ágætum á þessu þingi. En við erum komin á þann punkt að við ætluðum að klára málið í dag og mér þætti mjög miður ef það endaði í einhvers konar upplausn í stað þess að við reynum að finna farsæla lausn á málinu. Mér þætti það miklu leiðinlegri endir á annars ágætu þingi. Þess vegna vil ég ítreka ósk mína um að formenn flokka fái rými til að funda og ræða misjafnan skilning manna á því í hverju það samkomulag fólst sem hv. þingmönnum hefur verið tíðrætt um. Ég tel að okkur sé ekkert að vanbúnaði með það.