148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér leiðist alveg ótrúlega þegar upp koma þingmenn sem skiljanlega eru þingmenn stjórnarmeirihlutans og detta í varðgírinn, verða varðhundar sjálfkrafa, án þess að hlusta á þá sem hafa verið að tala. Hér hefur fólk talað í mestu vinsemd um að reyna að ná sátt í málinu. Ég er sannfærð um að hægt er að leysa þetta, bara ef við formenn flokkanna fáum tækifæri til að setjast niður og fara yfir málið. En okkur er ekki gefið það svigrúm. Það hafa því miður fallið einhver gífuryrði en ég er engu að síður sannfærð um að ef við gerum hlé á fundi og forseti veitir formönnum flokkanna svigrúm til að fara yfir málið verði hægt að halda áfram þingfundi með eðlilegum hætti og fara í atkvæðagreiðslu eins og boðað var. Enn og aftur ítreka ég þau tilmæli mín til hæstv. forseta, sem er þingreyndur maður. Hann veit og skynjar að komið er upp ákveðið andrúmsloft í þinginu, sem mér finnst óheppilegt því að það stefndi í farsæl þinglok, eitthvað sem myndi lyfta upp þinginu en ekki draga það niður eins og nú stefnir í. Það er því miður á ábyrgð stjórnarmeirihlutans.