148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er um margt mjög áhugavert mál. Það var afskaplega umdeilt af ýmsum ástæðum en á því hafa líka verið gerðar gríðarlega miklar breytingar. Mér sýnist að breytingartillögurnar séu allar til bóta og geri málið betra þó að það sé alls ekki fullkomið og eitt og annað hefði mátt bæta til viðbótar. En það er ekki annað hægt en að vekja athygli á því hversu mikill munur er á því hvernig menn hafa nálgast vinnu við þetta mál og afgreiðslu þess nú og hvernig menn nálgast annað mál sem varðar verðtrygginguna, með því beinlínis að koma í veg fyrir að menn fái að greiða atkvæði um það. Ekki aðeins er engin tilraun gerð til að ná saman um málið, það má ekki einu sinni greiða (Forseti hringir.) atkvæði um það.