148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í fyrri atkvæðaskýringu eru allar þær breytingartillögur sem fyrir liggja til bóta í þessu máli. Það hefur þróast mjög mikið frá því að það kom fyrst inn í þingið sem mjög vanbúið mál. En eins og fleiri hafa nefnt er synd að menn skuli ekki nýta meira krafta atvinnurekenda. Ekki bara vegna þess að þeir eiga hérna mikla hagsmuni og þar af leiðandi er eðlilegt að þeir komi að málum með meira afgerandi eða áþreifanlegri hætti en hér er gert ráð fyrir, heldur líka vegna þess að þeir hafa þekkingu á því sviði sem þeir starfa á. Hún ætti að reynast verðmæt, að fá sem mesta þekkingu sem víðast að og gera þannig sem mest úr þessu fyrir alla. Það er ákveðinn galli á þessu máli að menn skuli ekki hafa nýtt það tækifæri betur, en málið hefur hins vegar tekið miklum framförum í meðförum þingsins.