148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Hér er breytingartillaga sem eins og þær allar eða flestar er til verulegra bóta. Það sem þarna er m.a. verið að gera er að stofnunin falli undir upplýsingalög, með ákveðnum undanþágum þó. Ég hef ákveðinn skilning á því að þær undanþágur séu inni. Ég held hins vegar að mikilvægt hefði verið að sjálfseignarstofnunin, í ljósi þess hve ríkið er stór aðili að henni, félli undir upplýsingalög að öllu öðru leyti. Þar af leiðandi er ég hlynntur þessari breytingu og geri ráð fyrir að þingmenn Miðflokksins séu það einnig.

Það er að sjálfsögðu verið að gera fleiri breytingar á skjalinu, á lögunum, og ég geri ráð fyrir að koma aftur upp varðandi þær þegar að þeim kemur.