148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Hér er verið að stækka og fjölga í svokölluðu útflutnings- og markaðsráði. Verið er að bæta við fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samstarfshópi markaðsstofa landshlutanna og fulltrúum a.m.k. eins ráðherra, ef ég man þetta rétt og sé. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að betra hefði verið að fara þá leið að ýta þeim verkefnum meira til atvinnulífsins sem er leiðandi í því að sækja fram og markaðssetja vörur, þjónustu og annað. Það er lítið gert af því undir forustu eða fyrir tilstuðlan ríkisvalds, að ég held, en að sjálfsögðu þarf að vera samkomulag þar á milli og samvinna og mjög náið samstarf, enda býr stjórnsýslan yfir mjög hæfu og raunar frábæru fólki sem vinnur fyrir okkur úti um allan heim að markaðsmálum. En það er verið að fjölga í ráðinu og stækka það og nú sitja þar a.m.k. 31, ef ekki fleiri.